Saga stofunnar

Lögfræðistofa Suðurnesja hf. var stofnuð 1. febrúar 1994 af lögmönnunum Ásbirni Jónssyni hrl. og Lárentsínusi Kristjánssyni hrl. Stofan yfirtók rekstur Lögfræðistofu Suðurnesja sf. sem stofnuð var 1988 á grunni lögfræðistofu Jóns G. Briem hrl., sem hafði rekið lögfræðistofu í Keflavík frá árinu 1976.

Á árinu 2000 yfirtók Lögfræðistofa Suðurnesja rekstur lögmannstofu Vilhjálms Þórhallssonar hrl. en Vilhjálmur hafði rekið lögmannsstofu í Keflavík frá 1. júlí árið 1960, eða um 40 ára skeið. Í ágúst 2008 var bókasafn stofunnar, sem jafnframt er eitt af fundarherbergjum hennar, endurskipulagt og nefnt ,,Vilhjálmsstofa” til heiðurs Vilhjálmi Þórhallssyni hrl.

Unnar Steinn Bjarndal og Ásbjörn Jónsson

Unnar Steinn Bjarndal hdl. og Ásbjörn Jónsson hrl., fyrrverandi eigandi stofunnar

Á árinu 2007 eignaðist Unnar Steinn Bjarndal hdl. helmingshlut í stofunni á móti Ásbirni Jónssyni hrl. þegar Lárentsínus Kristjánsson hrl. gekk inn í rekstur Lögfræðistofu Reykjavíkur. Frá 1. maí 2015 er stofan rekin í samstarfi við lögmannsstofuna PACTA.

Allt frá stofnun stofunnar hefur starfsemi hennar náð yfir öll svið lögfræðinnar. Flestir viðskiptavinir stofunnar eru stofnanir, sveitarfélög og fyrirtæki á Suðurnesjum og sérhæfa ráðgjafar hennar sig þannig í þjónustu við viðskiptalífið. Frá árinu 2010 er viðskiptavinum stofunnar veitt ráðgjöf og þjónusta á þremur fagsviðum; lögfræðisviði, fjármálasviði og bókhaldssviði.

Lögfræðistofa Suðurnesja þjónustar fyrirtæki og einstaklinga um allt land, en megináhersla er að sjálfsögðu lögð á að þjónusta Suðurnesjamenn. Það hefur aldrei breyst á rúmum 55 árum – og mun ekki breytast.